Í yfirlýsingu sem fjölskylda Neumans sendir frá sér í dag segir að þrátt fyrir að hann hafi verið ungur að árum hafi hann lifað hvern einasta dag til fulls. Neuman hafi verið mikill ævintýramaður sem hafi trúað á hið góða í heiminum og á að hver einstaklingur geti lagt sitt af mörkum til að gera hann betri.
Fjölskyldan segir að Neuman hafi haft sterk áhrif á alla sem hann komst í kynni við enda hafi hann haft einstaka sýn á lífið. Það sé erfitt að hrífast ekki með manneskju sem lifi lífi sínu til fulls og sé á sama tíma alltaf vingjarnlegur. Mikilvægt sé að aðdáendur Neumans séu meðvitaðir um að hann hafi látist á meðan hann var að gera það sem hann elskaði mest sem var að ferðast um heiminn og að upplifa allt það besta sem hann hefur að bjóða.
Fjölskyldan bendir máli sínu til stuðnings á myndband sem hann tók á Íslandi skömmu fyrir slysið þar sem hann heyrist velta því fyrir sér hvort um sé að ræða hamingjuríkustu stundina í lífi hans.
Í yfirlýsingu fjölskyldunnar segir að Neuman hafi verið mikill hugsjónamaður sem hafi ávallt styrkt gott málefni. Hann hafi talað mikið um að láta drauma rætast. Það væri ekki nóg að hugsa um bara; það þyrfti líka að framkvæma.