Fyrir nokkrum dögum birtist myndband á samfélagsmiðlum þar sem Kurt Zouma, miðvörður West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, sést níðast á köttunum sínum. Hann bæði sparkar í þá og slær.
Hann baðst í kjölfarið afsökunar en atvikið hefur dregið dilk á eftir sér. Dýraverndunarsamtök hafa tekið kettina af Zouma, hann þarf að fara á námskeið þar sem hann lærir hvernig á að meðhöndla dýr, West Ham sektaði hann því sem nemur 50 milljónum íslenskra króna og íþróttavörumerkjarisinn Adidas sagði upp samningi sínum við leikmanninn.
Þá hefur einn af styrktaraðilum West Ham sagt upp samningi sínum við félagið og annar íhugar að gera slíkt hið sama.
David Moyes, þjálfari West Ham, sá hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að velja leikmanninn í byrjunarlið sitt er West Ham mætti Watford í liðinni viku og stefnir á að gera slíkt hið sama nú um helgina.
"I'm not condoning him, his actions were terrible. They were diabolical but we've chosen to play him and we stand by that."
— BBC Sport (@BBCSport) February 11, 2022
„Ég er ekki að leggja blessun mína yfir það sem hann gerði. Það var ógeðfelld en ég hef ákveðið að spila honum og ég stend við þá ákvörðun. West Ham hefur tæklað málið vel og félagið hefði vart geta gripið aðgerða fyrr en það gerði,“ sagði Moyes í viðtali fyrir leik helgarinnar.
„Við munum aðstoða hann við að leita sér hjálpar. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa honum. Hann er fullur eftirsjár. Eins og allir aðrir þarf hann á smá fyrirgefningu að halda,“ bætti Moyes við.
„Ég hef aldrei lent í neinu svona áður. Þetta sýnir að sem fótboltaþjálfari þá getur þú aldrei verið viss um hverskonar mál þú þarft að meðhöndla. Þetta er allt hluti af starfinu, við myndum þó frekar vilja að West Ham væri í fréttunum vegna gengi liðsins inna vallar en liðið er mjög gott. Ég er leiður að fókusinn hefur verið tekinn frá þeirri staðreynd þar sem við erum að eiga mjög gott tímabil,“ sagði Skotinn að endingu.