Baldur Rökkvi Árnason háskólanemi þreytti bóklega ökuprófið fyrir skemmstu og rifjaði upp upplifun sína af því. „Ég mætti í prófið eftir að hafa lært og lært og lært fyrir það,” sagði hann.
„Við vorum fimmtán í herberginu og það féllu allir nema tveir á prófinu. Ég er nú háskólanemi, læri mikið og er góður í bóklegu námi. Samt rétt náði ég með sjö villur. Ef ég hefði fengið einni villu meira, þá hefði ég fallið. Þetta er grimmt próf! Allir sem voru þarna voru skítstressaðir og í vondu ástandi.”
Fötlun á ökuskírteini
Í pistlinum var velt upp ýmsum hliðum á ökuprófum, m.a. var gagnrýnt að fólk sem tæki bílpróf á sjálfskipta bifreið þyrfti aftur í bílpróf ef það ætlaði það sér að aka beinskiptri bifreið – eins og kúpling og gírstöng breyti öllu um hvernig best sé að aka bíl.
Bergur Þorri Benjamínsson þakkaði góðan pistil og bætti við:
Varðandi að taka aðeins próf á sjálfskiptan, þá er þarna verið að hugsa nánast út að endimörkum alheims en samt ekki.
Fatlað fólk (eins og ég) er margt hvert með svona próf vegna líkamlegra skerðinga. Þó að ég sé með próf á hvort tveggja þá er ég líka með einhverjar tákntölur sem segja að ég geti aðeins ekið bíl með höndunum. No shit!
Það var meira að segja gert að skilyrði fyrir 6 árum síðan að ég endurnýjaði ökuskírteinið mitt með þessum tákntölum. Annars fengi ég ég engan bílakaupastyrk! Hvað þá að bílnum yrði breytt fyrir mig. Ekki séns
Auðvitað hlýddi ég kerfinu, það er jú það sem ræður...
Það þykir sem sagt úrslitaatriði hjá stjórnvöldum að tiltaka það svart á hvítu í ökuskírteini manns, sem er í hjólastól, að hann geti einungis ekið með höndunum.
Spurningabankinn liggi fyrir
Örn Kr. Arnarson ökukennari hafði samband og tók undir hvert orð. Sagðist hafa býsnast yfir bóklegu prófunum í áratugi. Hann leggur til að spurningabankinn frá Samgöngustofu liggi fyrir og nemendur hafi aðgang að honum. Þá geti nemendur áttað sig á orðalaginu og lært spurningarnar, sem þýði þá að tilganginum sé náð. Annars verði útkoman sú að fallhlutfallið verði of hátt, en eins og fram kom í pistlinum er fall á bóklega prófinu um 40-50 prósent. Það þýðir að á bilinu 2.000 til 2.700 falla á prófinu á hverju ári.
Guðbrandur Bogason ökukennari tók einnig undir efni pistilsins. Hann sagðist lengi hafa gagnrýnt hvernig unga fólkið væri afvegaleitt í ökuprófum með útúrsnúningum og óljósu orðalagi.
Svo benti hann á að námsskráin sem spurt væri úr í prófum Samgöngustofu væri ekki til á erlendum tungumálum, ekki einu sinni ensku. Það ylli miklum vandræðum fyrir þá sem væru af erlendu bergi brotnir og ætluðu að kynna sér námsefnið – ekki síst þar sem erfitt væri að gera útúrsnúningafræði á íslensku skiljanlega á erlendum tungumálum. „Það getur aldrei orðið nema kjaftæði, sérstaklega þegar þú hefur ekki námsskrá til að styðjast við.“
Punktakerfið algjör frumskógur
Einn nemandi hjá honum féll fimm sinnum á bóklega prófinu og var það þó „samviskusöm og góð kona.“ Eitt af því sem þvældist fyrir henni var íslenska punktakerfið, en íslenskir ökumenn nýkomnir með próf safna punktum ef þeir fremja umferðarlagabrot og geta misst prófið fari þeir yfir tiltekin mörk. Íslenska punktakerfið er algjör frumskógur að sögn Guðbrands og fylgir því „ansi flókinn doðrantur“, en upplýsingar um það er einungis að finna á íslensku, og því enginn vegur fyrir erlenda nemendur að kynna sér það!
Svo má vel spyrja hvað utanbókarkunnátta um punktakerfi hefur með ökufærni að gera.
Bankið í ofninum
„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í óborganlegum þáttum Fóstbræðra og fórnaði höndum. Í þessum pistlum sem birtast vikulega á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.
Pétur Blöndal p.blondal@gmail.com.