Hljóðið í upphaf útvarpsfréttarinnar einkenndi morgun margra íbúa Suðvesturlands sem þurftu að moka bíla sína út úr stæðum til þess að komast til vinnu.
Fréttastofa fór á stúfana um klukkan tíu í morgun og ræddi við vegfarendur sem unnu að því að ýta föstum bílum og koma sér til vinnu í snjóþunganum.
Gengur þetta?
„Já, já. Það þarf að moka þetta,“ sagði Þórarinn, þegar hann var að moka frá tröppunum að heimili sínu.
Hvernig finnst þér snjórinn?
„Mér finnst hann alveg ömurlega leiðinlegur. Komin með nóg af þessu,“ sagði Elín, íbúi í Hlíðunum sem var að moka frá bílnum.

Vegir víða lokaðir
Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að aðstæður verði mjög krefjandi fyrir vegfarendur á Suðvesturlandi í dag. Búast megi við því að færð á vegum versni þegar líður á daginn en víða er flughált. Vegir um Kjalarnes, Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði eru lokaðir vegna veðurs.
Björgunarsveitirnar Ingunn og Tintron aðstoðuðu konu á Lyngdalsheiði sem hafði gengið í blindbyl í um tvo tíma í nótt, en hún óskaði eftir aðstoð eftir að hafa gengið frá snjóhúsi sem hún hafði dvalið í.
Ekkert met slegið
Veðurfræðingur á veðurstofunni segir að þó að snjókoma hafi verið mikil sé ekki um neitt met að ræða.
„Nei þetta er alls ekki met snjór. Það mældust 25 cm á Bústaðarvegi í morgun. Meðaltal af dýptarmælingum sem voru gerðar. Það var meiri snjór í lok janúar, byrjun febrúar árið 2019 og þar áður árið 2017 þannig að metið er rúmir 50 cm frá árinu 2017,“ sagði Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Gular viðvaranir eru í gildi vegna veðurs og segir Elín viðbúið að það verði vetrarástand og vetrarfærð næstu daga.
