Hann segir að öll snjóruðningstæki sem borgin hafi yfir að ráða séu nú í notkun. Pawel biður fólk sem sé óþreyjufullt um að hafa í huga stærð umferðakerfisins sem snjóruðningsmenn kappkosti nú við að halda hreinu. Pawel ræddi stöðu mála í Reykjavík síðdegis.
„Þetta eru held ég 1.400 kílómetrar sem Vegagerðin og Reykjavíkurborg þurfa að moka saman. Til samanburðar er hringvegurinn 1.321 kílómetri þannig að þetta er rúmlega heill hringvegur sem við þurfum að moka til að halda götum hreinum og ofan á það bætast göngu-og hjólastígar sem eru um 800 kílómetrar. Samtals er þetta um 2.000 kílómetrar af leiðum sem við þurfum að þjónusta.“
Pawel segir að eðlilega sé forgangur settur á meginæðar, strætóleiðir og neyðarakstur. Því næst sé leitast við að halda hreinum aðkomuleiðum að leikskólum og skólum.
Aðspurður hvort Reykjavíkurborg sé að senda menn út að ryðja nógu snemma svarar Pawel því til að menn hefji mokstur í kringum þrjúleytið að nóttu til. Fannfergið og snjókoman hafi verið slík í dag að þörf hafi verið á að ryðja suma vegi tvívegis.