Trudeau segir aðgerðirnar tímabundnar, réttmætar og eðlilegar undir þessum kringumstæðum. Aðgerðirnar fela ekki í sér að herinn verði kallaður út til að hafa hemil á mótmælendum, en enn hafast mörg hundruð mótmælendur við í höfuðborginni Ottawa og trufla þar umferð og fleira.
Neyðarheimildirnar fela meðal annars í sér að hægt verði að frysta reikninga þeirra sem mótmælunum tengjast án þess að til þurfi að koma dómsúrskurður. Þá geta yfirvöld gert bíla og önnur farartæki í eigu mótmælenda upptæk.
Lögreglumenn létu fjarlægja mótmælendur af Ambassador-brúnni í borginni Windsor síðastliðinn sunnudag, en þeir höfðu í heila viku stöðvað alla umferð þar sem tengir hina kanadísku Windsor og bandarísku borgina Detroit og er því mikilvæg viðskiptaæð.
Trudeau segir að aðgerðirnar nú séu til komnar til að hægt sé að tryggja öryggi Kanadamanna og sömuleiðis störf. Þá sagði hann að lögregla myndi fá frekari heimildir til að hreppa mótmælendur í gæsluvarðhald eða sekta þá til að hægt sé að verja nauðsynlega innviði. Hinar auknu heimildir yfirvalda væru tímabundnar og mjög vel skilgreindar.