Erlent

Minnst níu hafa látist af völdum Eunice í Evrópu

Árni Sæberg skrifar
Tré hafa rifnað upp með rótum í Hollandi.
Tré hafa rifnað upp með rótum í Hollandi. EPA-EFE/SEM VAN DER WAL

Í fyrsta sinn í sögunni var rauð viðvörun gefin út í Lundúnarborg í dag vegna stormsins Eunice sem gekk yfir Bretlandseyjar og meginland Evrópu. Að minnsta kosti fjórir hafa látist á Bretlandseyjum og fimm á meginlandinu.

Fólk var beðið um að halda sig inni, skólum var lokað og fjölda flugferða aflýst. Stórt gat rifnaði á tjald O2 tónleikahallarinnar í höfuðborginni og töluvert er um skemmdir á mannvirkjum. Talið er að þetta sé mesta óveður sem gengið hefur yfir Bretland í þrjá áratugi og vindhraðamet Breta var slegið í dag.

Fjórir létust í Hollandi þar sem tré rifnuðu upp með rótum. Þrír létust þegar þeir urðu fyrir trjám og einn þegar hann ók bíl sínum á tré sem hafði fallið. Að því er segir í frétt Dutch news.

Í Haag fauk hluti þaks af heimavelli ADO Den Hague og heimili í grennd við Elandkert voru rýmd þegar einn turn kirkjunnar fór að sveiflast í rokinu.

Þá segir í frétt The Guardian að breskur ríkisborgari hafi látist í Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×