Skoðun

Skömminni skilað

Inga Daníelsdóttir skrifar

Það eru ekki mörg ár síðan hugmyndin um að skila skömm var sett í loftið en nánast samstundis og hún kom fram hóf hún sig til flugs, varð strax alþekkt og viðtekin sem grundvallar mannréttindi kvenna sem höfðu verið beittar ofbeldi og órétti.

Mér hefur skilist að mannréttindi séu í eðli sínu algild, burtséð frá kyni, litarhætti, uppruna, stétt eða stöðu. Þannig finnst mér líka að þau eigi að vera.

Það er nefnilega mannskemmandi að sitja uppi með áfall. Því fylgir síðan sorg á sorg ofan að vera einn með áfallið án samúðar og stuðnings. Þvert á móti er kannski skömm og fyrirlitningu smurt í sárið. Slíkt mun seint gróa.

Sársaukinn sem fylgir slíkum aðstæðum er sammannlegur, hann er ekki bundinn við konur. Við konur erum upp til hópa ekki heilagar guðsmæður, við erum jafn mannlegar og breiskar og bræður okkar, karlmennirnir. Við gerum mistök, við iðrumst, reynum að breiða yfir, leyna. Þá getur verið að við grípum til þess ráðs að snúa vörn í sókn. Gifta konan sem ekki vildi fara með manninum sínum heim af djamminu er ekki líkleg til að ganga að því vísu, þegar hún kemur heim á hádegi daginn eftir, að allir verði bara glaðir og sáttir. Hún býr til afsökun og afsökunin er að eitthvað hafi verið öðrum að kenna.

Maðurinn sem var sá kjáni að fara fullur heim með konu sem hann þekkti ekki neitt, sá ekki fyrir áralangt fangelsi vegna þeirra mistaka.

Nú langar mig að fara fram á að mannréttindin að fá að skila skömminni fái að ná til allra þeirra sem dæmdir eru saklausir.




Skoðun

Sjá meira


×