Skoðun

Til hamingju með Marakess-sáttmálann

Marín Guðrún Hrafnsdóttir skrifar

Aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum tekur formlega gildi í dag og því ástæða til að fagna. Undirritun sáttmálans tryggir aðgengi að fjölbreyttara efni fyrir blinda, sjónskerta og fólk með lestrarhömlun og nú með þeim hætti að ekki skiptir máli hvar í heiminum bækur og annað prentefni er gefið út. Höfundarréttarvarið efni, sem gert er aðgengilegt, verður því óháð landamærum. Heimildir í sáttmálanum fjalla sérstaklega um óhagnaðardrifin félög og stofnanir á borð við Hljóðbókasafn Íslands sem gerir efni aðgengilegt fyrir þá sem á þurfa að halda og því skiptir undirritun Íslands miklu máli fyrir þann hóp sem nýtir sér mikilvæga þjónustu safnsins.

Lengi hefur verið beðið eftir því að Ísland fullgilti sáttmálann og bættist þar með í hóp 85 aðildarríkja heimsins. Á síðasta ári voru gerðar nauðsynlegar breytingar á höfundalögum til undirbúnings og jafnframt var skerpt á hlutverki og réttindum Hljóðbókasafns Íslands en í 19. grein endurskoðaðra höfundalaga segir: „Viðurkennd eining getur gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að, eða miðlað eintaki á aðgengilegu formi, gert það aðgengilegt, dreift því eða lánað einstaklingi með sjón- eða lestrarhömlun eða annarri viðurkenndri einingu með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, sé það ekki gert í hagnaðarskyni og sé eingöngu til afnota fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun.“

Sáttmálinn setur skýrar reglur um meðferð á höfundarrétti og einvörðungu er verið að opna á millisafnaaðgang til þeirra hópa sem á þurfa að halda og sem í tilviki Hljóðbókasafns Íslands hafa skilað inn vottorði um prentleturshömlun. Sáttmálinn birtir þó fyrst og síðast ríkan skilning á mannréttindum og nauðsyn þess að tryggja jafnt aðgengi að lesefni. Sáttmálinn bætir verulega aðgengi blindra og sjónskerta að les- og prentefni nú þegar höfundarréttarvarið aðgengilegt efni getur ferðast yfir landamæri.

Höfundur er forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×