Götunöfnum hér og þar hefur verið breytt í pólitískum tilgangi eins og í Budapest í Ungverjalandi í fyrra. Þá tóku borgaryfirvöld upp á því að nefna götur í kringum stórt landsvæði í borginni þar sem Kínverjar hugðust byggja stóran háskólakampus í "Hong Kong frelsisstræti" og "Dalai Lama stræti."
Það er því ekki einstakt í heiminum að götunöfnum sé breytt þjóðum til heiðurs eða stuðnings. Nú hefur Eyþór Arnalds leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lagt til að nafni Garðastrætis, þar sem rússneska sendiráðið er, verði breytt úr Garðastræti í Kænugarðsstræti.

„Nú er sótt að Kænugarði. Við höfum þessi tengsl við Kænugarð og Úkraínu frá fornu. Það er viðeigandi að sýna móralskan stuðning með því að nefna kennileiti borgarinnar eftir þessari fornu borg,“ segir Eyþór.
Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir er fædd og uppalin í vesturhluta Úkraínu en hefur búið á Íslandi frá ellefu ára aldri og býr nú við Garðastræti. Henni finnst þetta frábær tillaga.
„Þegar ég frétti af þessari tillögu þá snertir hún mig mjög mikið. Ég er virkilega ánægð með tillöguna og vona að hún fái að ganga í gegn."
Þér finnst hún vera að senda rétt skilaboð?
„ Já svo sannarlega. Kænugarður er íslenskt orð frá því víkingar frá Skandinavíu fóru til Kiev. Þannig að mér finnst þetta frábær tenging milli Íslands og Úkraínu,“ segir Viktoría.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað í skipulagsráði borgarinnar í morgun. Eyþór minnir á að Eystrasaltsríkin hafi til að mynda heiðrað Íslendinga með Íslands-, Reykjavíkurstrætum og torgum.
„Þar voru Eystrasaltsríkin að þakka fyrir sig. Við vorum fyrst til að viðurkenna þau þegar Eystrasaltsríkin brutust til sjálfstæðis. Núna er sótt að sjálfstæði Úkraínu og mér finnst sjálfsagt að við styðjum við bakið á fólkinu þar,“ segir Eyþór.
Viktoría segist eiga fjölda skyldmenna, vina og bekkjarfélaga sem nú væri verið að senda í stríð eins og alla karlmenn frá 18 til 60 ára.
„Þótt það séu fjölskyldur sem vilja flýja þá eru þær aðskildar. Þannig að konur og börn geta farið yfir landamærin en karlmenn verða að vera eftir. Það er líka voðalega erfitt og ég þekki margar fjölskyldur, vinafjölskyldur mínar, sem vilja ekki yfirgefa Úkraínnu af þessum ástæðum,“ segir Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir.