Roman Abramovich staðfesti í gær að hann ætli að selja Chelsea, félagið sem hann hefur átt meirihluta í frá 2003. Á þeim tíma hefur Chelsea unnið 21 titil, þar á meðal enska meistaratitilinn fimm sinnum og Meistaradeild Evrópu í tvígang.
Breskir fjölmiðlar greina frá því að Radcliffe sé einn þeirra sem vilji kaupa Chelsea. Hinn 69 ára Radcliffe er stuðningsmaður Chelsea og er ársmiðahafi á Stamford Bridge. Talið er að auðæfi hans nemi sex milljöðum punda.
Radcliffe á tvö fótboltalið, Nice í Frakklandi og Lausanne-Sport í Sviss, og gæti bætt Chelsea í þann hóp. Hann á líka hlut í Formúlu 1 liðinu Mercedes.
Radcliffe hefur fjárfest í jörðum og veiðiréttindum á Norðausturlandi og er stærsti landeigandi á Íslandi.
Abramovich hefur sett þriggja milljarða punda verðmiða á Chelsea en ætlar að afskrifa 1,5 milljarða punda sem hann hefur lánað félaginu. Hann hefur falið bandaríska bankanum The Raine Group að sjá um söluna á Chelsea fyrir sig.
Meðal annarra auðjöfra sem ku vera áhugasamir um að kaupa Chelsea er Hansjorg Wyss, 86 ára Svisslendingur. Hann íhugar að bjóða í Chelsea í félagi við meðal annars Todd Boehly, eiganda bandaríska hafnaboltaliðsins Los Angeles Dodgers.