Fótbolti

Albert lék allan leikinn er Genoa varð af mikilvægum stigum í botnbaráttunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert í leik með Genoa.
Albert í leik með Genoa. Getty Images

Genoa og Empoli gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik dagsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson lék allan leikinn á hægri væng heimamanna í Genoa.

Lið Genoa er í harðri baráttu við falldrauginn og þurfti nauðsynlega á þremur stigum að halda þegar Empoli kom í heimsókn á Stadio Luigi Ferraris-völlinn í dag. Það var ljóst að heimamenn þurftu á sigrinum að halda en þeir voru mun sóknarsinnaðri en gestirnir sem virtustu nokkuð ánægðir með eitt stig.

Alls áttu leikmenn Genoa 18 skot í leiknum, þar af sjö á markið. Það var hart barist í leik dagsins en alls fóru átta gul spjöld á loft. 

Mörkin voru heldur færri eða núll talsins, þrátt fyrir fjölda skota tókst Alberti og félögum ekki að þenja netmöskvana og lauk leiknum með markalausu jafntefli, 0-0. Albert lék eins og áður sagði allan leikinn.

Genoa er í 19. sæti, sjö stigum frá öruggu sæti þegar 10 umferðir eru eftir af Serie A.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×