Talning í kjördæminu gekk ekki áfallalaust fyrir sig og komu upp ábendingar þess efnis að lög hefðu verið brotin meðal annars vegna þess að atkvæði hefðu verið skilin eftir óinnsigluð að lokinni talningu. Lögreglustjórinn á Vesturlandi sekaði alla starfsmenn yfirkjörstjórnar í október. Starfsmennirnir neituðu að greiða sektina.
Karl Gauti Hjaltason, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, var á meðal þeirra sem lögðu fram kæru vegna málsins. Ingi Tryggvason, fyrrverandi formaður yfirkjörstjórnar, segir í samtali við fréttastofu að um sé að ræða málið sem kom til vegna kæru Karls Gauta.
Í umræddu bréfi, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir lögreglustjóri að þann 1. janúar 2022 hafi ný kosningalög tekið gildi sem að mati lögreglu séu ekki nægilega skýr um skyldu til innsiglunar kjörgagna líkt og henni þótti um þágildandi kosningalög. Því telur lögreglustjóri vafa ríkja um refsinæmi ætlaðs brots yfirkjörstjórnarmanna eftir gildistöku kosningalaganna.
Ingi segir að honum hafi ekki þótt málið neitt sérstaklega þungbært.
„Jú, auðvitað er þetta búið að vera leiðinlegt en ég held svo sem að það hafi haft meiri áhrif á aðra.“
Aðra í kjörstjórninni?
„Já, ég býst við því.“
Er einhver lærdómur þarna sem má draga af þessu máli?
„Ekki fyrir mig allavega. Það er svo sem enginn lærdómur fyrir mig að draga af þessu en það er lærdómur fyrir aðra. Menn ættu að hugsa sinn tvisvar um áður en þeir ásaka aðra um refsiverða háttsemi., segir Ingi.
„Þótt málið hafi endað svona þá er alvarlegt að ásaka aðra um refsiverða háttsemi sem á ekki við rök að styðjast.“
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur Katrín Pálsdóttir, einn starfsmanna yfirkjörstjórnar, fengið samskonar bréf. Má reikna með að sambærilegt bréf sé á leiðinni eða hafi borist öllum starfsmönnum yfirkjörstjórnar í kjördæmi.
Um er að ræða eitt af fjölmörgum kærumálum sem bárust Lögreglunni á Vesturlandi vegna málsins.
Fréttin hefur verið uppfærð.