Fótbolti

Mike Dean leggur flautuna á hilluna

Atli Arason skrifar
Mike Dean sýnir Josh Dasilva, leikmanni Brentford, rautt spjald í leik gegn Newcastle þann 26. febrúar.
Mike Dean sýnir Josh Dasilva, leikmanni Brentford, rautt spjald í leik gegn Newcastle þann 26. febrúar. Marc Atkins/Getty Images

Enskir fjölmiðlar hafa greint frá því síðasta sólarhringinn að þeir hafi öruggar heimildir fyrir því að knattspyrnudómarinn Mike Dean muni leggja flautuna frægu á hilluna eftir yfirstandandi leiktímabil.

Dean mun þó ekki alveg segja skilið við fótboltann, heldur einungis fótboltavöllinn. Dómarinn geðþekki mun alfarið færa sig yfir í VAR myndbandsdómgæslu herbergið frá og með næsta tímabili.

Dean hefur verið dómari í ensku úrvalsdeildinni í 22 ár eða alveg frá því að hann hóf störf árið 2000. Sagt er að dómarinn hafi ætlaði að hætta fyrir tímabilið í ár en síðar verið sannfærður um að taka eitt tímabil í viðbót. Dean er með 553 leiki undir beltinu í úrvalsdeildinni og er sá dómari sem hefur gefið flest rauð spjöld í sögu deildarinnar, alls 114 rauð spjöld.

Mike Dean er alls ekki óumdeildur en hann tók sér stutt frí frá fótbolta á síðasta tímabili eftir að hafa fengið moðhótanir þegar hann gaf Tomas Soucek, leikmanni West Ham, rautt spjald í 0-0 jafntefli Hamranna gegn Fulham í febrúar á síðasta ári.

Ekkert hefur enn fengist neitt staðfest frá Dean sjálfum eða samtökum knattspyrnudómara um brotthvarf Dean úr fótboltanum. Lee Mason er eins og er eini knattspyrnudómarinn í fullu starfi sem myndbandsdómari hjá ensku úrvalsdeildinni og ekki liggur fyrir hvort Dean muni bætast í þann hóp eða taka alfarið við starfi Mason.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×