„Að sitja hjá þegar slík þróun á sér stað hefði í för með sér afar mikla áhættu fyrir sjóðinn,“ fullyrðir Jón Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður LIVE, og bætir við:
„Ekki síst hættu á að missa af góðum fjárfestingartækifærum en einnig – og ekki síður – að sitja uppi með illa eða alls ekki seljanlegar eignir sem ekki lengur standast kröfur um ábyrgð og sjálfbærni,“ að því er fram kemur í ávarpi hans í nýrri árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins en ársfundur hans fer fram síðar í dag.
LIVE er annar stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir að fjárhæð um 1.200 milljarða og jukust þær um 190 milljarða í fyrra þegar sjóðurinn skilaði hreinni raunávöxtun upp á 11,6 prósent. Er það ein besta ávöxtun í 66 ára sögu lífeyrissjóðsins.
Í fyrra lauk LIVE vinnu að heildstæðri stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem ná til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta, eða svonefnd UFS-viðmið. „Þetta er stórt skref,“ að sögn Jóns Ólafs, „og kann að virðast við fyrstu sýn sem sjóðurinn sé að eltast við tískufyrirbæri eða stundarvinsældir. Svo er alls ekki.“
Í samræmi við þá nálgun var Lífeyrissjóður verslunarmanna í hópi þeirra þrettán íslensku lífeyrissjóða sem lýstu því yfir í nóvember á liðnu ári að þeir ætluðu sér að fjárfesta fyrir samanlagt 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) og kynntu á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fór fram í Glasgow í Skotlandi.
Heildstæð stefna um ábyrgar fjárfestingar er stórt skref og kann að virðast við fyrstu sýn sem sjóðurinn sé að eltast við tískufyrirbæri eða stundarvinsældir. Svo er þó alls ekki.
Með aðild sjóðsins að því samstarfi hefur hann, eins og áður hefur verið sagt frá, meðal annars sett sér það markmið að fjárfesta fyrir 150 milljarða króna í hreinni orkuframleiðslu og loftlagstengdum verkefnum. Þessi nýju markmið koma til viðbótar 30 milljörðum sem LIVE hefur þegar fjárfest fyrir í slíkum verkefnum.
Samhliða stefnu um ábyrgar fjárfestingar hefur lífeyrissjóðurinn gefið út lista yfir fjárfestingakosti sem hann hefur útilokað í eignasöfnum sínum en nú þegar eru 138 fyrirtæki á þeim útilokunarlista. Meðal starfsþátta sem sjóðurinn hefur útilokað að fjárfesta í eru framleiðendur tóbaks, tilteknir flokkar jarðefnaeldsneytis og framleiðendur umdeildra vopna. Þegar hafa verið seldar eignir að virði meira en þriggja milljarða króna úr eignasöfnum LIVE vegna þessarar nýju stefnu um ábyrgar fjárfestingar.
Sumir hafa gagnrýnt þessa auknu áherslu lífeyrissjóðanna á fjárfestingar á grundvelli UFS-viðskipta og sett fram efasemdir um að þeim hafi verið stætt á að skrifa undir fyrrnefnda viljayfirlýsingu á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna með hliðsjón af því viðskiptasambandi sem ríkir á milli lífeyrissjóðs og lífeyrisþega.
Ársæll Valfells, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sagði þannig í grein sem hann skrifaði á Innherja í lok síðasta árs – undir yfirskriftinni Umboðsskylda á pólitískum tímum – að fjárhagslegir hagsmunir umbjóðenda lífeyrissjóðanna væru þeirra meginhagsmunir.
„Eftir stendur hvort skuldbinding lífeyrissjóða til fjárfestingar fjármuna umbjóðenda sinna í málaflokk sem er öðrum þræði pólitískur og því í eðli sínu umdeildur, meðal að minnsta kosti hluta umbjóðenda lífeyrissjóðanna, falli undir umboðsskyldu þeirra eður ei,” sagði í grein Ársæls.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, hefur – rétt eins og stjórnarformaður LIVE gerir núna í ávarpi sínu til sjóðsfélaga – mótmælt slíkum sjónarmiðum og telur að aukin áhersla á ábyrgar fjárfestingar sem falla undir UFS-viðmiðin geti skilað betri ávöxtun til lengri tíma litið. Birta stefnir að því að um átta prósent af eignasafni sjóðsins verði í slíkum fjárfestingum fyrir árslok 2030. Það er um þrisvar sinnum hærra hlutfall en í dag.
Í viðtali við Innherja um miðjan janúar síðastliðinn hafnaði Ólafur því alfarið að lífeyrissjóðirnir væru mögulega að fara út fyrir lögbundið hlutverk sitt með því að líta til slíkra þátta í fjárfestingarstefnunni.
„Málaflokkurinn er ekki pólitískari eða umdeildari en margt annað sem meta þarf í fjárfestingum. Pólitísk áhætta er áhætta á að stjórnvöld bregðist við og setji lög og reglur sem hafa áhrif á fjárfestingar. Leggi stjórnvöld meðal annars sérstaka skatta á fyrirtæki sem menga mikið,“ útskýrði Ólafur, „hefur það vitaskuld áhrif á rekstur þeirra og þá þarf að leggja mat á hvernig brugðist er við því.“