Fréttastofa hefur bæði rætt við föður og móður barnanna og lögmenn þeirra í dag. Báðir foreldrar eru íslenskir. Faðirinn lýsir því að hafa verið lokkaður af heimili sínu í gær og við það tilefni hafi móðirin nýtt tækifærið og farið með drengina úr landi.
Faðirinn vann forræðismál fyrir dómstólum í Noregi og hefur forræði yfir drengjunum þremur sem hafa verið búsettir í Noregi. Tvær eldri dætur þeirra eru búsettar hjá móður sinni hér á landi.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á alþjóðasviði ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að lögregluyfirvöld í Noregi hafi verið í sambandi vegna málsins. Það sé þeirra að svara fyrir málið.
Fréttastofa hefur ekki náð tali af lögreglunni í Noregi í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.