Fossar markaðir, sem eru með höfuðstöðvar í Reykjavík en starfrækja einnig skrifstofu í London, högnuðust um 526 milljónir króna sem er nærri þreföldun frá árinu 2020 þegar hagnaður nam 177 milljónum. Frá stofnun verðbréfafyrirtækisins árið 2015 hefur það aldrei skilað jafn miklum tekjum eða hagnaði.
Á síðasta ári voru Fossar umfangsmestir í tilkynntum viðskiptum með bæði skuldabréf og hlutabréf. Nam hlutdeildin 21,1 prósenti í skuldabréfum og 25,5 prósentum í hlutabréfum.
Fossar hafa aukið umsvif sín talsvert á síðustu misserum, til dæmis með stofnun eignastýringarsviðs á síðasta ári. Einnig stóðu Fossar að stofnun sjóðastýringarfyrirtækisins Glyms eignastýring, sem mun leggja áherslu á sérhæfðar fjárfestingar auk sérvalinna fjárfestinga fyrir fagfjárfesta.
Þá hefur Innherji greint frá því að Fossar hafi skilaði inn umsókn til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands þar sem óskað er eftir starfsleyfi sem fjárfestingabanki. Gangi áætlanir Fossa verður félagið þá fimmti bankinn sem er starfræktur hér á landi en aðrir bankar – Arion, Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika – eru hins vegar allir með starfsleyfi sem viðskiptabankar.
Eitt af skilyrðum þess að fá fjárfestingabankaleyfi er að vera með að lágmarki 5 milljónir evra, jafnvirði 711 milljóna íslenskra króna, í eigið fé. Í árslok 2021 nam eigið fé verðbréfafyrirtækisins 775 milljónum.
Sem fjárfestingabanki munu Fossar þannig meðal annars geta gefið út víxla eða skuldabréf, átt viðskipti fyrir eigin reikning og þá verður þeim eins heimilt að stunda lánastarfsemi. Þá geta Fossar jafnframt bæst við í hóp aðalmiðlara með ríkisverðbréf og viðskiptavakt þeirra á eftirmarkaði.
Stærstu hluthafar félagsins eru hjónin Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, stjórnarformaður Fossa, Haraldur I. Þórðarson, forstjóri, og Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri Markaða.