Ítalíumeistarar Inter höfðu betur í stórleiknum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Inter vann virkilega mikilvægan sigur gegn Juventus í kvöld.
Inter vann virkilega mikilvægan sigur gegn Juventus í kvöld. Jonathan Moscrop/Getty Images

Ítalíumeistarar Inter unnu afar mikilvægan 1-0 útisigur gegn Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Sigurmarkið kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir röð af furðulegum ákvörðunum dómara leiksins.

Heimamenn í Juventus voru mun hættulegri í upphafi leiks og í raun var ótrúlegt að liðinu tækist ekki að skora. Giorgio Chiellini átti til að mynda skot í slá nánast af marklínunni og Alvaro Morata skallaði gott færi framhjá eftir fallega sendingu frá Dusan Vlahovic.

Þegar líða fór á fyrri hálfleikinn náðu Ítalíumeistarar Inter að færa sig ofar á völlinn og skapa hættu fyrir framan mark Juventus. 

Á lokamínútum hálfleiksins braut Alvaro Morata á Denzel Dumfries innan vítateigs, en dómari leiksins dæmdi ekkert og við tók vægast sagt farsakennd atburðarrás. Dómarinn var að lokum sendur í VAR-skjáinn góða og breytti dómnum í vítaspyrnu. 

Hakan Calhanoglu fór á punktinn, en Wojciech Szczesny varði spyrnuna. Boltinn barst út í teiginn og eftir að hafa skoppað á milli manna endaði hann í netinu. Dómarinn sá þó eitthvað sem enginn annar virtist sjá og dæmdi aukaspyrnu á leikmenn Inter og markið átti því ekki að standa.

Eftir langa skoðun myndbandsdómara reyndu þeir að bjarga andliti með því að segja að varnarmenn Juventus hafi verið komnir inn í teiginn þegar vítaspyrnan var tekin og því var ákveðið að Hakan Calhanoglu skildi endurtaka spyrnuna.

Í þetta skipti gerði hann engin mistök, Wojciech Szczesny kom engum vörnum við og staðan var 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn í Juventus voru áfram hættulegra liðið í síðari hálfleik. Þeir komu sér oft á tíðum í vænleg færi til að skora og þeir komust líklega næst því þegar Denis Zakaria skaut í stöng úr góðu skotfæri.

Inn vildi boltinn þó ekki og niðurstaðan varð 1-0 sigur gestanna. Ítalíumeistararnir sitja nú í þriðja sæti deildarinnar með 63 stig eftir 30 leiki, þremur stigum á eftir AC Milan sem trónir á toppnum. 

Juventus situr hins vegar í fjórða sæti deildarinnar með 59 stig eftir 31 leik og það verður að teljast ansi ólíklegt að liðið blandi sér í titilbaráttuna af einhverju viti úr þessu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira