Rödd Brodda þekkja flestir landsmenn úr útvarpinu, án nokkurs vafa ein þekktasta rödd landsins. Samstarfsfólk Brodda á fréttastofunni fagnaði með lófaklappi þegar Broddi, með peysuna yfir öxlunum, gekk út úr útvarpsstúdíóinu í hádeginu.
Fjöldinn virtist koma Brodda á óvart og hann þakkaði fyrir sig. Meirihluti fréttamanna og starfsfólk var með símana á lofti.
„Ég klappa fyrir ykkur,“ sagði Broddi svo og klappaði.
Þórður Helgi Þórðarson, einn af samstarfsfélögum Brodda úr útvarpinu hjá RÚV, var einn þeirra sem tók upp lokasekúndurnar á ferli Brodda og birti á Facebook.
Broddi hefur vakið sérstaka athygli fyrir áhuga sinn og fréttaflutning af náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta og eldgos. Þá hefur áhugi hans á fuglum ekki farið fram hjá fólki og þá sérstaklega komu lóunnar á vorin.
Það er skammt stórra högga á milli í Efstaleiti því Bogi Ágústsson, fréttaþulurinn góðkunni, lætur sömuleiðis af störfum innantíðar. Önnur kanóna sem fólk þekkir vel af skjánum.
„Stóra verkefnið er þá hvernig ætlum við að fara í gegnum þetta tímabil, byggja upp reynslu og bæta upp þá þekkingu sem við erum að missa en samt að viðhalda gæðum,“ sagði Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV í viðtali í Atvinnulífinu á Vísi á dögunum.
Fleiri reynsluboltar hafa kvatt fréttastofuna nýlega og má nefna Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra og Einar Þorsteinsson fréttamann sem býður fram krafta sína í borgarstjórnarkosningum fyrir Framsóknarflokkinn.
Fréttin hefur verið uppfærð.