Afkoma LEX í fyrra er sú besta frá árinu 2009 en lögmannsstofan skilaði þá hagnaði upp á rúmlega 290 milljónir.
Fjöldi ársverka hjá LEX var 45 og hélst óbreyttur frá árinu 2020. Þá stóð launakostnaður félagsins nánast í stað og var samtals um 704 milljónir.
Hluthöfum félagins fækkaði um fjóra í fyrra og voru þeir í árslok 16 talsins. Miðað við það nam hagnaður á hvern eiganda að meðaltali um 17 milljónum króna samanborið við tæplega 10 milljónir á árinu 2020. Eignarhlutur stærstu hluthafa LEX er liðlega 10,3 prósent.
Síðasta ár einkenndist af mörgum stórum yfirtökum og samrunum í íslensku viðskiptalífi, einkum fyrirtækjakaupum af hálfu erlendra fjárfestingasjóða, sem ætla má að hafi haft jákvæð áhrif á afkomu LEX eins og annarra lögmannsstofa sem hafa komið að þeim verkefnum.
Lögmannsstofan var þannig meðal annars ráðgjafi franska fjárfestingasjóðsins Ardian sem náði samkomulagi um kaup á Mílu, dótturfélagi Símans, fyrir samtals 78 milljarða króna í október í fyrra. Þá var LEX ráðgjafi svissneska eignastýringarfyrirtækisins við kaup á atNorth undir lok síðasta árs en heildarvirði íslenska gagnversins í þeim viðskiptum var um 350 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 45 milljarða króna á þáverandi gengi.
LEX var einnig lögfræðilegur ráðgjafi Síldarvinnslunnar við hlutafjárútboð og skráningu útgerðarfélagsins á markað í maí á síðasta ári.
Í hópi stærstu eigenda LEX eru meðal annars lögmennirnir Arnar Þór Stefánsson, Guðmundur Ingvi Sigurðson, Eyvindur Sólnes, Lilja Jónasdóttir og Ólafur Haraldsson.