Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Lögreglustjórinn sektaði á sínum tíma meðlimi yfirkjörstjórnar í kjördæminu fyrir brot á lögum eftir að ýmsir vankantar komu í ljós á starfsháttum kjörstjórnar. Kjörstjórnarfólkið neitaði hinsvegar að gangast við sektunum.
Á dögunum var síðan greint frá því að lögreglan hefði ákveðið að fella niður rannsóknina á störfum kjörstjórnar þar sem ekki teldist líklegt að rannsóknin myndi leiða til sakfellingar.
Þetta vill Karl Gauti ekki sætta sig við og segir í samtali við blaðið að umfjöllun um svo mikilvæg mál sem þessi eigi að heyra undir dómstóla.
Karl Gauti, sem er einnig fyrrverandi sýslumaður í Vestmannaeyjum, gagnrýnir einnig vinnubrögð lögreglunnar á Vesturlandi og segir hana aðeins hafa rannsakað hluta málsins, en í kæru sinni til lögreglu á sínum tíma hafi Karl Gauti bent á fjölmörg atriði sem hann taldi ábótavant hjá kjörstjórninni.