Ummæli Lilju, sem féllu í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, þess efnis að hún hafi verið alfarið á móti því hvernig staðið var að sölunni á Íslandsbanka hafa vakið mikla athygli.
Ummæli Lilju stórpólitísk tíðindi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar segir hér um stórpólitísk tíðindi að ræða.
„Að hún hafi í aðdraganda útboðs um sölu á bréfum í Íslandsbanka komið því skýrt á framfæri að hún væri á móti aðferðafræðinni sem átti að beita. Sem viðskiptaráðherra fer hún með samkeppnismál og hagsmuni neytenda.

Hún situr að auki í ráðherranefnd um efnahagsmál og hefur sem viðskiptaráðherra margsinnis tjáð sig um málefni bankanna, t.d. nýlega um að leggja ætti á bankaskatt vegna ofurhagnaðar bankanna,“ segir Þorbjörg á Facebook-síðu sinni.
Hún segir orð Lilju um andstöðu við lokað útboð kalla á að fundagerðir ríkisstjórnar og ráðherranefndar sem og bókanir verði lagðar fram til að varpa ljósi á aðdraganda sölunnar.
„Ef rétt er, og ef ráðherrann er ekki einangruð um þessa afstöðu innan Framsóknarflokksins, var ekki samstaða innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar um þá leið sem fjármálaráðherra valdi,“ segir Þorbjörg Sigríður. Og að hagsmunir almennings kalli á að upplýst verði hvernig sú ákvörðun var tekin innan ríkisstjórnarinnar að selja aðeins völdum hópi fjárfesta.
Sigmar veltir þessu einnig fyrir sér í áðurnefndri grein sem lesa má í heild sinni hér neðar.
Hann segir söluna taka á sig einkennilegri mynd með hverjum deginum. Lilja taki skýrt fram að fátt komi henni á óvart í málinu sem Sigmar segir einkennilegt því útkoman kom öllum öðrum á óvart, vegna þess að hún var ekki í neinu samhengi við það fyrirkomulag sem kynnt var.
Illa dulkóðuð smjörklípa VG afrugluð
Sigmar segir ekki hafa hvarflað að neinum að seldir yrðu litlir óverulegir hlutir í bankanum til fjölmargra fjárfesta með afslætti sem ætlaður var stórkaupendum.
„Enn síður gat nokkur maður vitað að sumir þeirra sem sáu um söluna myndu sjálfir kaupa í bankanum. Þeir fengu sem sagt myndarlega þóknun fyrir að selja sjálfum sér þjóðareign með afslætti.

Og hvergi kom fram að einstaka aðilar gætu notað þetta sem tækifæri til að "taka snúning" og leysa út afsláttarhagnaðinn á einni nóttu. Okkur var nefnilega sagt að selja ætti stórum fjárfestum sem gætu staðið með bankanum til lengri tíma, líka þegar illa árar. "Gæði eigenda" skipti miklu máli.“
En útkoman kom Lilju ekki á óvart sem Sigmar telur furðu sæta: „Því er það miður að hún hafi ekki talað skýrar um þetta fyrr opinberlega, því þannig hefði mögulega mátt afstýra þessu stórslysi.
Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin hafi ráðist í sölu á fjármálafyrirtæki með fyrirkomulagi sem sjálfur viðskiptaráðherrann var andvígur.
Að sama skapi er það jákvætt að viðskiptaráðherra skuli afrugla illa dulkóðaða smjörklípu VG og benda á það augljósa: Ábyrgðin er fyrst og síðast pólitísk og það dugir ekki bara að kasta sprekum á bálköstinn sem nú brennur undir bankasýslunni,“ segir í niðurlagi greinar Sigmars.