Kjarninn birti í gær upplýsingar sem benda til þess að stór hluti þeirra sem keyptu í síðasta útboði í Íslandsbanka hafi selt bréfin sín og þannig innleyst hagnað af bréfunum. Bréfin voru seld með afslætti á 117 krónur á hlut en hafa verið á bilinu 124-130 á hvern hlut síðan.
Fjárlaganefnd var meðal þeirra sem fékk kynningu á tilboðsleiðinni sem valin var við útboðið og samþykkti þá leið.
Haraldur Benediktsson annar varaformaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokks gagnrýnir framkvæmd útboðsins miðað við framkomnar upplýsingar.
„Menn taka þarna hækkun hlutabréfa út skömmu eftir kaupin á þeim. Mér finnst þetta ekki falleg ásýnd á sölu á opinberri eigu að horfa. Við höfðum í fjárlaganefnd þessa tilboðsleið undir höndum og hvernig hún yrði framkvæmd. Við höfum síðan spurt Bankasýsluna eftir hvaða ramma söluráðgjafarnir störfuðu. Við höfum þær upplýsingar til dæmis núna að söluráðgjafarnir hafi sjálfi verið að fjárfesta í útboðinu. Þá hefur FME hafi hafið ákveðna rannsókn á því. Þannig að sannarlega sáum við ekki fyrir að menn seldu skömmu eftir þessa tilboðsleið til að leysa út hagnað,“ segir Haraldur.
Haraldur er á ferð um landið að tala við kjósendur, hann segist skynja mikla reiði meðal almennings vegna sölunnar.
„Fólki misbýður brask,“ segir hann.
Man ekki eftir að sjónarmiðum viðskiptaráðherra hafi verið komið á framfæri
Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagðist í vikunni hafa komið efasemdum um tilboðsfyrirkomulagið á framfæri í ráðherranefnd um efnahagsmál. Fram hefur komið hjá forsætisráðherra að hún hafi ekki bókað þá athugasemd. Haraldur segist ekki muna eftir að fulltrúar Framsóknarflokksins hafi komið viðhorfum Lilju á framfæri í fjármálanefnd.
„Ekki man ég eftir sjónarmiðum viðskiptaráðherra í þessu samhengi nei,“ segir Haraldur.
Sífellt fleiri stjórnarþingmenn gagnrýna framkvæmd útboðsins
Haraldur bætist þannig í hóp fleiri stjórnarþingmanna sem gagnrýna framkvæmd útboðsins opinberlega en nú þegar hefur fjármálaráðherra sagt að útboðið hafi ekki farið fram eins og hann helst óskaði. Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd segir í grein á Vísi að hún hafi ekki haft hugmyndaflug í að starfsmenn og stjórnendur bankans, eigendur og starfsmenn umsjónaraðila útboðsins yrðu meðal kaupenda og það fyrir nokkra tugi miljóna. Þingmenn Vinstri grænna hafa gagnrýnt söluna og sagt að stjórn og framkvæmdastjóri Bankasýslunnar eigi að segja af sér. Og þá hefur eins og þegar er komið fram viðskiptaráðherra gagnrýnt söluna.