Greint er frá því að á heimasíðu lögreglunnar að undirbúningur hafi staðið yfir frá því ís hvarf af Þingvallavatni. Gert sé ráð fyrir að unnið verði að uppsetningu vinnubúða vegna björgunaraðgerða á fimmtudaginn.
„Setja þarf upp tjaldbúðir með aðstöðu fyrir björgunarmenn, öryggisbúnaður vegna köfunar. Einnig verður Björninn fjarskiptabíll Landsbjargar á vettvangi til að tryggja fjarskipti.
Auk þessa eru prammar sem nýttir verða sem aðstaða úti á vatninu og einnig til að hífa flugvéla af botni Þingvallavatns og færa að landi. Gert er ráð fyrir að aðgerðir á svæðinu hefjist með sjósetningu og prófunum á tækjabúnaði kl 9:00,“ segir í tilkynningunni.
Ís lagði á vatninu jafnharðan
Flak TF ABB liggur á botni Ölfusvatnsvíkur í suðurhluta Þingvallavatns. Miklar björgunaraðgerðir stóðu yfir á svæðinu vikuna eftir slysið, en ákveðið var að hætta aðgerðum 11. febrúar vegna íss sem lagði á vatninu jafnharðan og torveldaði allar aðgerðir. Þá var þó búið að koma líkum hinna fjögurra sem létust af botni vatnsins.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur ákveðið að banna yfirflug allra loftfara um svæðið frá klukkan 8 á föstudagsmorgun og þar til aðgerðum er lokið. „Fyrir liggur að nota þarf dróna lögreglu við aðgerðina og eins mun þyrla Landhelgisgæslunnar vera í viðbragðsstöðu til flugs á vettvang ef þarf,“ segir í tilkynningunni.