Rússum hefur orðið lítið ágengt í hernaði sínum á Donbas-svæðinu í austurhluta Úkraínu síðasta sólarhringinn.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sagði í daglegu ávarpi sínu í gær að Rússar hygðust ná undir sig öllum suðurhluta landsins. Innrás Rússa í Úkraínu væri aðeins byrjunin og sagði Zelensky þá ætla sér að ráðast inn í önnur Evrópulönd í framhaldinu.
Fréttastofa fylgist með nýjustu vendingum í Úkraínu í beinni í vaktinni hér að neðan:
Zelensky hefur ítrekað beðið vestrænar þjóðir um beina aðstoð með liðstyrk í stríðinu gegn Rússum.
Þetta hafa NATO-ríkin ekki viljað gera af ótta við að út brjótist allsherjarstyrjöld í Evrópu en Bretar tilkynntu það í gær að þeir ætluðu sér að stíga skrefinu lengra en þeir hafa gert hingað til og senda skriðdreka til Póllands. Pólverjar geta þannig gefið nágrönnum sínum í austri sína skriðdreka án þess að veikja sínar hersveitir.
„Við erum þakklát öllum samherjum okkar sem viðrast loks hafa heyrt í okkur og veita okkur þá aðstoð sem við þurfum. Við vitum fyrir víst að þessi vopn verða notuð til að bjarga þúsundum mannslífa,“ sagði Zelensky meðal annars í gær.
Heimir Már Pétursson, fréttamaður okkar, fór yfir stöðuna á átökunum í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær:
Einblína á viðkvæma hópa
Meira en fimm milljónir eru nú á flótta um Evrópu vegna stríðsins. Aldrei hafa fleiri flóttamenn komið hingað til lands í einu og síðustu vikurnar en þeir sem koma frá Úkraínu eru orðnir rúmlega 830 talsins.
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að einblína sérstaklega á viðkvæma hópa á næstunni.

„Þar er verið að horfa til þess að taka á móti allt að 100 manns frá Moldóvu. Moldóva er auðvitað búin að taka á móti mjög mörgu fólki frá Úkraínu núna og hefur sent heimsbyggðinni ákall um að styðja við þau í því,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Einnig var samþykkt að taka á móti fimm til tíu fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra sem hafa flúið Úkraínu og eru nú í stödd í Póllandi.