„Ég hef tekið þá ákvörðun að ég mun óska eftir því að önnur félög muni taka við okkar félagsmönnum sem sjáum okkur ekki kleift að vera lengur hjá Eflingu og erum ósátt við þessar gjörðir,“ sagði Anna Sigurlína í samtali við fréttastofu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sér málið ekki sömu augum og Anna Sigurlína.
„Það er augljóslega ekki svo að félagið sé klofið. Kosningarnar eru nýliðnar og með skýra niðurstöðu. Þessi fundur er yfirstaðinn og jafnframt með skýra niðurstöðu,“ sagði Sólveig.

Ólöf Helga segir að ákvörðun um hópuppsögn alls starfsfólks á skrifstofum Eflingar gefa höggstað á félaginu.
„Ég tel að þetta sé gífurlega alvarlegt og muni hafa miklar afleiðingar því þarna er Efling búin að sýna að við styðjum hópuppsagnir og að okkur finnist ekkert að því að hópuppsagnir séu fyrsta úrræðið. Maður spyr sig hversu alvarlega atvinnurekendur geta tekið okkur þegar við förum að mótmæla hópuppsögnum annars staðar.“
Sólveig segir af og frá að hópuppsögnin veiki stöðu félagsins í kjaraviðræðum.
„Nei, auðvitað er það ekki svo og við erum að byggja upp sterkasta og öflugasta félag verka- og láglaunafólks á þessu landi þannig að ég skil bara ekki að nokkurri manneskju skuli í alvöru detta það til hugar að það sem Efling, undir minni stjórn, hefur verið að gera sé til marks um veikingu á möguleikum verka- og láglaunafólks til að ná árangri í réttlætisbaráttu sinni.“
Hún segir málflutninginn vera glórulausan. „Ég vona að fólk fari að ná einhverri jarðtengingu og skoða þessi mál með allavega einhverri örðu af skynsemi. Ég held að sá tími hljóti að fara að renna upp.“
En hvað með fólkið sem er ósátt og getur ekki sætt sig við hópuppsagnirnar? Hvernig hugsarðu þér að hægt verði að græða sárin?
„Þarna er náttúrulega lítill minnihluti í stjórn sem hefur beitt sér í þessu máli með mjög vanstilltum og ómálefnalegum hætti og svo eru það þessir sem mættu á fundinn í gær. Það hafa ekki fleiri félagsmenn kveðið sér hljóðs í þessum átökum. Ég sé svo sem ekkert fyrir mér að það þurfi að fara núna í eitthvað sérstakt sáttar- eða sárgræðsluferli. Þvert á móti, þá erum við með skýrt umboð til að stýra þessu félagi.“

Næst á dagskrá sé að hefjast handa við undirbúning kjarasamningsviðræðna.
„Öll orka mín og stjórnar verður sett í það og þau sem ekki geta unað við skýrar lýðræðislegar niðurstöður þurfa að hugsa sinn gang og þurfa að kynna sér grundvallarreglur lýðræðisins.“
Í síðustu kjarasamningslotu fóru nokkur verkalýðsfélög inn í viðræðurnar í bandalagi. Sólveig telur ekki að gagnrýni verkalýðsforingja á hópuppsögnina verði þess valdandi að verkalýðsfélögin geti ekki endurtekið leikinn.

„Ég held að löngun þeirra sem fóru fram saman í síðustu kjarasamningum á almennum markaði sé raunverulega til staðar til þess að gera það á ný en mig lagnar líka að nota tækifærið og benda á þann magnaða og raunverulega árangur sem Efling náði ein og sér í baráttunni við Reykjavíkurborg þar sem allar valdastofnanir þessa samfélags snerust gegn okkur og reyndu að kúga okkur til hlýðni.
Við gáfumst ekki upp og niðurstaða þeirra samningaviðræðna var sú að láglaunafólkið hjá borginni, mest megnis konur, voru á endanum þau sem á endanum fengu hæstu prósentuhækkanirnar í þeirri kjarasamningslotu.“
Það séu því miklar líkur á samstarfi.
„Ég tel að það verði gott og sterkt samflot. Ég held að sú manneskja sem skilur eitthvað um verkalýðsbaráttu og kjarabaráttu hlýtur að sjá að Efling er sterkt og öflugt félag sem mun auðvitað bara mæta til leiks í næstu kjarasamningum með þessi öflugustu vopn brýnd og tilbúin sem er auðvitað samstaða félagsfólks Eflingar. Ég hlakka bara til. Ég og félagar mínir getum ekki beðið eftir því að fá að hefjast handa við að undirbúa það sem koma skal.“