Innlent

Myndband: Risahverfi rís í Mosfellsbæ

Snorri Másson skrifar
Svona sjá Reitir fyrir sér hluta Blikastaðahverfisins, þar sem borgarlína fer í gegn. Þessar hugmyndir eru þó óopinberar og líklegt að niðurstaðan verði alls ólík. Skipulagið hefur ekki verið unnið.
Svona sjá Reitir fyrir sér hluta Blikastaðahverfisins, þar sem borgarlína fer í gegn. Þessar hugmyndir eru þó óopinberar og líklegt að niðurstaðan verði alls ólík. Skipulagið hefur ekki verið unnið. TEIKNING ÚR SKIPULAGSTILLÖGU ARKÍS FYRIR REITI.

Fyrirséð er að sprenging verði í íbúafjölda í Mosfellsbæ á næstu árum með tilkomu nýs hverfis í Blikastaðalandi sem verið hefur í eigu Arion banka frá því eftir hrun. Stefnt er að því að íbúar geti sinnt helstu erindum fótgangandi og að Borgarlínan verði í burðarhlutverki.

Blikastaðalandið eru um 90 hektarar að flatarmáli og er því sem næst óbyggt. Það heyrir til algerra undantekninga að svo mikið landflæmi sé skipulagt í einu, að ekki sé talað um land í einkaeigu. Þeim mun þyngra í vöfum er að komast að samkomulagi sem allir eru sáttir við. En það hefur nú tekist eftir margra ára starf.

Sýnt er frá svæðinu í myndbrotinu hér að ofan úr kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Hér verður væntanlega aðeins þéttari byggð en er í innsveitinni,“segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ. „Hér er gert ráð fyrir hágæðaalmenningssamgöngum hérna í gegnum þetta svæði og Borgarlínan mun koma hingað, þannig að ég held að þetta verði bara enn ein skrautfjöðurinn í hatt Mosfellsbæjar þetta uppbyggingarsvæði hér á Blikastöðum,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ.

Áætlað er að á svæðinu rísi 3.500-3.700 íbúðir - sem þýðir allt að tíu þúsund íbúum. Íbúar í Mosfellsbæ núna eru 13.500, þannig að samkvæmt þessu fjölgar þeim um allt að 75% með tilkomu nýs hverfis. 

Reyna að minnka íbúðaskort

Arion banki, sem á lóðirnar, fjárfestir í uppbyggingunni en selur sig hægt og rólega út af svæðinu. Á móti tekur bankinn þátt í að byggja á tvo skóla, fjóra leikskóla og almennilega íþróttaaðstöðu.

„Það endurspeglar líka bara okkar vilja til að reyna að koma þessu verkefni af stað og reyna að minnka þennan framboðsskort sem hefur verið á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Benedikt Gíslason bankastjóri.

Það má segja að með Blikastaðahverfi verði bilið brúað á milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Framkvæmdir eiga að hefjast 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×