Innlent

Dæmdur í fimm­tán mánuði fyrir sér­stak­lega hættu­lega hnífs­tungu­á­rás

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi, af þeim eru tólf skilorðsbundnir. 
Maðurinn var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi, af þeim eru tólf skilorðsbundnir.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir hótun og sérstaklega hættulega líkamsárás. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn einnig til að greiða brotaþola 600 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn var ákærður í byrjun mars á þessu ári fyrir að hafa í september 2018 veist að manni með ofbeldi inni í bifreið í Reykjanesbæ, stungið hann með hníf í vinstri upphandlegg og tvívegis í vinstra læri. Afleiðingar hnífstunganna voru þau að brotaþoli hlaut þrjú 1 cm stungusár, eitt í handlegg og tvö í fótlegg. 

Samkvæmt dómnum, sem féll 4. maí síðastliðinn, var maðurinn jafnframt ákærður fyrir að hafa hótað manninum  ofbeldi ef hann leitaði til lögreglu. Fram kemur í ákæru að hótunin hafi verið til þess fallin að vekja hjá manninum ótta um líf, heilbrigði og velferð hans.

Maðurinn játaði brot sín en hann hefur nokkra dóma á bakinu. Maðurinn hefur einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrots og sjö sinnum hlotið dóma vegna brota gegn umferðarlögum, fíkniefnalögum, almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum. Þar sem líkamsárásin sem um ræðir hér var framin áður en fjórir síðustu dómarnir voru upp kvaðnir verður manninum því  dæmdur hegningarauki. 

Brotaþoli krafðist þess að maðurinn greiddi honum eina milljón króna í miskabætur, sem dómurinn lækkaði í 600 þúsund krónur. Þá var maðurinn dmædur í fimmtán mánaða fangelsi en tólf þeirra eru skilorðsbundnir í tvö ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×