Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í morgun. Þar segir að ráðherra hafi að undanförnu ferðast um landið til að kynna breytingarnar. Sagt var frá því fyrr á árinu að til stæði að sameina öll sýslumannsembættin og lýstu margir yfir óánægju með þá fyrirætlan, meðal annars stjórnarþingmaðurinn Líneik Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokki, og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Sýslumannsembættin eru nú níu og verða samkvæmt frumvarpinu níu skrifstofur áfram starfræktar, svokallaðir „sýslumenn í héraði“. Þá kemur fram að skrifstofurnar séu í heild 24 og segir Jón að með frumvarpinu sé verið að festa þær skrifstofur í lög. Ætli einhver sér að loka einhverri skrifstofunni þá þurfi það að fara í gegnum þingið.
Jón segir ennfremur í samtali við blaðið að miklar breytingar hafi orðið á starfsemi sýslumannsembætta síðustu ár með auknum rafrænum samskiptum. Sú þróun muni halda áfram.