Maskína kannaði ekki aðeins fylgi flokkanna í borginni fyrir fréttastofu en okkur lék einnig hugur á að vita hvaða hug Reykvíkingar bera til samgöngumála sem hafa verið áberandi í kosningabaráttunni.
Sjá nánar: Samfylkingin stærsti flokkurinn í Reykjavík

Reykvíkingar virðast treysta Samfylkingunni best til að sinna samgöngumálunum eða tæp 29 %.
Ríflega 24% treysta Sjálfstæðisflokknum best í samgöngumálunum og 12, 5% Pírötum.
Rúmlega 9% segjast treysta Framsókn mest, 8,7% Viðreisn, 5% Flokki fólksins og tæp 5%Sósíalistaflokki Íslands.
Tæp 4% segjast treysta Miðflokki best til að halda utan um samgöngumálin en eingöngu 2,4%Vinstri grænum.
Umræða um borgarlínu hefur farið hátt í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga en í könnun Maskínu kemur fram að rúm 28% eru mjög hlynnt borgarlínu og rúm 18% eru frekar hlynnt. Samanlagt segjast því 46,4% vera jákvæð fyrir borgarlínu.

Tæp 32% lýstu sig aftur á móti andvíg Borgarlínu. Flestir í þeim hópi eru karlmenn yfir fimmtugt og íbúar austan Elliðaáa.
Af þeim sem segjast ýmist mjög eða frekar hlynnt borgarlínu eru tveir yngstu aldurshóparnir fyrirferðarmestir, það er að segja 18-39 ára og íbúar Miðborgar og Vesturbæjar.

Maskína vann könnunina fyrir fréttastofu og var hún lögð fyrir dagana 6.-11. maí. Svarendur voru rúmlega þúsund talsins.
