„Maður gengur út í sól og blíðu, vor og fuglasöng,“ sagði Dagur um það hvernig dagurinn byrjaði. Hann sagðist með fiðrildi í maganum en hann væri bjartsýnn og sagði að kosningabaráttan hefði verið skemmtileg.
Hann sagði baráttuna hafa verið styttri en venjulega. Allt hafi verið svolítið seinna í gang og kjördagur hafi verið fyrr en venjulega.
Varðandi nýjustu kannanir og að þær sýndu að meirihlutinn gæti fallið í kosningunum sagði Dagur alla baráttuna hafa verið jafna og hann hefði ítrekað fyrir sínu fólki og stuðningsmönnum meirihlutans að það þyrfti að mæta á kjörstað.
Dagur sagði ekki hægt að huga að næstu skrefum fyrr en búið væri að telja upp úr kjörkössunum. Hann sagðist vonast til þess að meirihlutinn myndi halda og ef það gerðist myndu þau sem að honum koma setjast niður og ræða saman.
Ef meirihlutinn haldi ekki þyrfti að skoða stöðuna í nýju ljósi.
Dagur sagði kannanir sýna að stærstur hópur kjósenda vildi hann áfram í borgarstjórastól en hann réði því ekki einn.
„Þar þarf að ná samkomulagi milli margra flokka,“ sagði Dagur. „Í það samtal er ég tilbúinn.“