Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti fund með Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, og Silju Ingólfsdóttur frá almannavörnum í morgun en þau hafa fundað mikið saman síðastliðin tvö ár. Senn dregur að því að Katrín og Þórólfur fundi í síðasta skipti, allavega á meðan Þórólfur gegnir embætti sóttvarnalæknis.
Katrín segir að hún hafi ekki rætt oftar við nokkurn mann í síma undanfarin tvö ár en Þórólf. í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld deilir hún sögu sem þau Þórólfur rifjuðu upp í morgun:
Þórólfur orðinn þriðja hjólið
Katrín segist hafa verið á leið til Borgarfjarðar eystri ásamt fjölskyldu sinni þegar hún var sem svo oft áður djúpt sokkin í símtal við Þórólf þegar hún tók eftir því að Gunnar eiginmaður hennar var kominn langleiðina upp á Jökuldal, sem er auðvitað alls ekki rétt leið á Borgarfjörð.
„Ég fór þá að benda Gunnari á að hann þyrfti að snúa við og fór þá Þórólfur að ráðleggja mér um rétta leið. Við rifjuðum upp þetta augnablik í dag þegar Þórólfur var orðinn þátttakandi í hjónabandinu og lagði þar gott eitt til,“ segir forsætisráðherra.