Rannsóknin var samstarfsverkefni sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar. 916 einstaklingar á aldrinum 20-80 ára tóku þátt í rannsókninni þar sem mótefni gegn veirunni voru mæld og kannað var um tilvist veirunnar í nefkoki með PCR-prófi.
Niðurstöðurnar leiða í ljós að um 70-80 prósent fólks á aldrinum 20-60 ára hafa smitast af Covid-19. Hjá aldurshópnum 60-80 ára var um helmingur búinn að smitast.
Þessar niðurstöður styrkja þá tilgátu að útbreitt ónæmi gegn Covid-19 hafi náðst í samfélaginu. Þá styðja þær einnig þá ákvörðun sóttvarnalæknis að bjóða einstaklingum 80 ára og eldri fjórða skammtinn af bóluefni.