Stúlkan var í hópi á kajökum á vatninu þegar hún rak aðeins frá hópnum og féll útbyrðis. Samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins var heilmikið viðbragð sett af stað þegar útkallið barst. Tveir bátar og kafarar frá slökkviliðinu voru meðal annars sendir á staðinn.
Fólki sem var á staðnum tókst að koma stúlkunni í bát um klukkan hálf átta. Hún hafði þá verið í vatninu í nokkurn tíma. Hún var í björgunarvesti.
Þegar í land var komið var stúlkunni komið í sjúkrabíl þar sem hún fékk aðhlynningu. Að sögn slökkviliðs leit ástandið vel út þrátt fyrir volkið.