Þotan, að gerð Airbus A319, kom frá Lissabon í Portúgal. þar sem hún var máluð í einkennislitum Niceair.

Vélin mun sinna áætlunarflugi Niceair, sem í sumar býður upp á ferðir til London, Kaupmannahafnar og Tenerife, frá Akureyrarflugvelli. Í haust áætlar flugfélagið svo að bæta við flugi til Manchester.

Vélin kemur í tæka tíð fyrir jómfrúarferð hins nýja flugfélags, sem áætluð er til Kaupmannahafnar, næstkomandi fimmtudag. Uppselt er í það flug.
Þotunni verður formlega gefið nafn við hátíðleg athöfn á Akureyrarflugvelli í dag, þar sem Eliza Reid, forsetafrú fær þann heiður að nefna flugvélina. Nafnið er að vísu þekkt, þotan ber heitið Súlur, eftir bæjarfjalli Akureyrar.
Segja má að nafnið sé einnig tilvísun í flugsögu Íslands og Akureyrar. Fyrsta farþegaflugið á Íslandi var flogið á milli Akureyrar og Reykjavíkur þann 4. júní árið 1928, á vegum Flugfélags Íslands. Flugvélin sem notuð var nefnd Súlan. Var það fyrsta flugvélin sem kom til Akureyrar.
Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi binda miklar vonir við að með tilkomu Niceair fjölgi erlendum ferðamönnum á svæðinu, ekki síst yfir vetrartímann.

