Fótbolti

Bale kveður og segir draum sinn hafa ræst hjá Real

Sindri Sverrisson skrifar
Gareth Bale átti risastóran þátt í að tryggja Real Madrid verðlaunagripinn í Meistaradeild Evrópu árið 2018 og endurnýjaði kynnin við bikarinn á laugardagskvöld þegar Real vann aftur.
Gareth Bale átti risastóran þátt í að tryggja Real Madrid verðlaunagripinn í Meistaradeild Evrópu árið 2018 og endurnýjaði kynnin við bikarinn á laugardagskvöld þegar Real vann aftur. Getty

Hinn 32 ára gamli Gareth Bale hefur nú yfirgefið Real Madrid eftir að hafa fagnað Evrópu- og Spánarmeistaratitli með liðinu á nýafstaðinni leiktíð.

Bale kom sáralítið við sögu hjá Real í vetur og lék aðeins fimm leiki í spænsku 1. deildinni en skoraði eitt mark.

Hann þótti aldrei ná að standa undir heimsmetsverðinu sem Real greiddi til að fá hann frá Tottenham árið 2013 en vann hins vegar á endanum fimm Evrópumeistaratitla og þrjá Spánarmeistaratitla með Real, auk fleiri titla.

Bale ritaði kveðjubréf og þakkaði öllum liðsfélögum sínum í gegnum tíðina, knattspyrnustjórum, þjálfurum og „stuðningsmönnunum sem studdu mig“.

„Ég kom hingað fyrir níu árum sem ungur maður sem vildi upplifa drauminn um að spila fyrir Real Madrid. Að klæðast sögufrægu, hvítu treyjunni, með merkið á brjóstkassanum, spila á Santiago Bernabéu og vinna titla og taka þátt í því sem félagið er frægt fyrir, að vinna Meistaradeild Evrópu,“ skrifaði Bale meðal annars og bætti við:

„Ég get núna litið til baka og sagt í hreinskilni að draumurinn hefur ræst og mun, mun meira en það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×