Dmitry Kovtun var sakaður um að hafa, með Andrei Lugovoy, komið Litvinenko fyrir kattarnef árið 2006 fyrir hönd rússnesku leyniþjónustunnar FSB. Kovtun lést á spítala í Moskvu samkvæmt frétt TASS, ríkisfjölmiðils í Rússlandi.
Lugovoy, sem nú er hátt settur þingmaður í rússnesku Dúmunni, lýsti mikilli sorg í samtali við TASS og að hann syrgði dauða náins og trygglinds vinar.
Dauði Litvinenko vakti mikla athygli á sínum tíma en hann hafði, áður en hann flúði til Bretlands, starfað fyrir hina alræmdu KGB, leyniþjónustu Sovétríkjanna. Áður en hann flúði var hann orðinn einn helsti gagnrýnandi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og fyrrverandi samstarfsmanns hans.
Eftir flóttann til Bretlands starfaði Litvinenko hjá bresku leyniþjónustunni, MI6. Hann dó kvalarfullum dauða eftir að eitri var komið fyrir í tebolla sem hann drakk í Lundúnum. Eitrið, Polonium 210, er sjaldgæft og geislavirkt efni sem rakið var til Sovétríkjanna.

Á dánarbeði sínu sakaði Litvinenko Pútín um að hafa fyrirskipað banatilræðið en yfirvöld í Kreml hafa alla tíð neitað aðkomu að dauða hans.
Niðurstöður breskrar rannsóknar, sem kynntar voru árið 2016, bentu hins vegar til þess að banatilræðið hafi verið á vegum FSB og að þáverandi yfirmaður leyniþjónustunnar, Nikolai Patrushev, og Vladimír Pútín sjálfur hafi fyrirskipað tilræðið.
Þá kom einnig fram í niðurstöðunum að Lugovoy og Kovtun hafi verið þeir sem komu eitrinu fyrir í tebolla Litvinenkos. Breskir rannsakendur höfðu fundið leyfar af polonium víða um Lundúnir, á stöðum þar sem tvíeykið hafði komið við, þar á meðal á skrifstofum, hótelum, flugvélum og á fótboltaleikvangi Arsenal.
Báðir neituðu sök og Rússland neitaði að framselja þá til Bretlands fyrir réttarhöld í málinu.
Þetta er ekki eina skiptið sem grunur hefur verið uppi um að Kreml hafi fyrirskipað eitrun fyrir Rússum á breskri grundu. Árið 2018 kom viðlíka mál upp þegar tilraun var gerð til að bana Sergei Skripal, sem var eitt sinn rússneskur njósnari, og Yuliu dóttur hans með taugaeitrinu novichok. Þrír rússneskir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir banatilræðið gegn Skripal-feðginunum en bresk yfirvöld hafa ekki enn náð að rétta yfir þeim.