Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað var um flugflotamál Icelandair. Lending Boeing 737 MAX-þotu Icelandair í fyrsta flugi til Norður-Karólínu á dögunum sýnir hvernig þessa nýja tegund gerir félaginu kleift að herja á nýja áfangastaði sem forstjórinn segir að ekki hefði verið hentugt að sinna með eldri vélum félagsins.

En þótt Maxarnir hafi reynst betri en ráðamenn Icelandair gerðu ráð fyrir vilja þeir stærri tegund á móti, vél sem tekur meiri frakt og hefur lengra flugþol.
„Við erum bara að fara í það núna á næstu mánuðum að undirbúa svona, hvað eigum við að segja, keppni á milli flugvélaframleiðenda hvað þetta varðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Max-þotur verða 14 talsins í flota Icelandair í sumar og verða þannig aðalvél félagsins í stað Boeing 757-vélanna, sem hefur núna fækkað niður í 13 úr 25 og áforma ráðamenn Icelandair að taka þær alfarið úr notkun á næstu fjórum árum. Þeir huga jafnframt að því að finna arftaka fyrir Boeing 767-breiðþoturnar.
Í flotamálum félagsins segir forstjórinn einkum tvo kosti í stöðunni:
„Einn er að vera með Max-vélar og 767 með þeim. Og hugsanlega að fara svo yfir í 787.
En önnur leið er svo að hefja vegferðina og fara yfir í Airbus-vélar,“ segir Bogi.

Icelandair pantaði raunar Boeing 787 Dreamliner-breiðþotur árið 2005 en féll frá kaupunum árið 2011. Núna er aftur horft til þeirrar vélar.
„En svona til framtíðar þá myndi 787 leysa 767 af hólmi, væntanlega. Við höfum verið að horfa á það í þessum módelum okkar.
En, eins ég sagði áðan, svo er annar möguleiki; að færa okkur yfir í Airbus-vélar.“
Þar er einkum horft á A320 línuna.
„Eins og Airbus A321 LR. Hún hentar mjög vel, virðist vera, sem svona arftaki 757 í okkar leiðakerfi. Þannig að það er sú fjölskylda sem við höfum verið að horfa til og skoða,“ segir forstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Ísland í dag fjallaði á dögunum um nýjan áfangastað Icelandair í Norður-Karólínu. Hér má sjá þáttinn: