Í byrjun árs hófst tilraunaverkefni sem gengur út á að fanga villtar kanínur í Elliðaárdalnum og finna fyrir þær heimili. Talið er að um tvö hundruð villtar kanínur séu í borginni. Verkefnið er á vegum Dýrahjálpar Íslands, Villikanína og Dýraþjónustu Reykjavíkur og hefur sjálfboðaliðum á þeirra vegum nú tekist að fanga hluta af þessum villtu kanínum.
„Við erum komin með sextíu og þrjár kanínur. Þar af eru sem sagt fjórar þeirra heimiliskanínur sem hefur verið hent út,“ segir Gréta Sóley Sigurðardóttir verkefnastjóri kanínuverkefnisins.

Flestum kanínunum hefur verið komið fyrir í húsnæði sem aðstandendur verkefnisins fengu tímabundið lánað. Reynt hefur verið að finna framtíðarheimili fyrir kanínurnar. Það hefur gengið hægt og aðeins tekist fyrir þrjár af þeim. Sextíu eru því enn heimilislausar.

Þar sem fáir hafa verið tilbúnir að taka kanínurnar að sér til framtíðar hefur verið dregið úr leit að kanínum í dalnum.
„Eins og er erum við ekki að taka inn í svona stórum hópum eins og við gerðum í byrjun en við erum í rauninni, við fylgjumst alltaf með niðri í dal, og á fleiri svæðum auðvitað líka. Við erum aðallega að einbeita okkur að sem sagt heimiliskanínum sem er hent út af því þær lifa ekki lengi eftir að þeim er hent út og svo erum við líka að fylgjast með hvort að þær séu særðar eða meiddar af því það er líka mikil neyð að koma þeim kanínum inn.“

Fréttina má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan