Innlent

Jóhann Páll slær á orð­róm um vara­for­manns­fram­boð

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Jóhann Páll tók sæti á Alþingi eftir kosningar í september.
Jóhann Páll tók sæti á Alþingi eftir kosningar í september. Vísir/Vilhelm

Jóhann Páll Jóhannsson segist ekki hafa í hyggju að bjóða sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar.

Viðskiptablaðið greindi frá því í skoðanapistli að Jóhann væri að „máta varaformannsstólinn“ og hygðist skora Heiðu Björgu Hilmisdóttur, núverandi varaformann flokksins, á hólm.

Í samtali við fréttastofu segist Jóhann ekki hafa neitt slíkt í hyggju.

„Mér hafði reyndar ekki dottið þetta í hug fyrr en ég sá þetta í Viðskiptablaðinu. Mér þykir vænt um að pennarnir á Viðskiptablaðinu hugsi svona fallega til mín en mér líður bara vel þar sem ég er og ætla ekki að bjóða mig fram til varaformanns, og hef aldrei ætlað,“ segir Jóhann.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í vikunni að Kristrún Frostadóttir væri að íhuga alvarlega að bjóða sig fram til formanns flokksins. Hún ætli þó að heyra í fé­lögum sínum í flokknum og kanna hvort fólk vilji koma með sér í verkefnið. „Ef ég læt slag standa þá geri ég þetta ekki ein. Ég ætla að taka loka­á­kvörðun í sumar og reikna með að upp­lýsa um hana eftir verslunar­manna­helgi,“ er haft eftir Kristrúnu.

Jóhann telur að Kristrún yrði mjög sterkur formaður jafnaðarmanna.

„Það er auðvitað hennar að ákveða. Ég vona að hún komist að réttri niðurstöðu,“ segir Jóhann. 

Ásamt Kristrúnu hefur Dagur B. Eggertsson verið orðaður við formannsstólinn eftir að Logi Einarsson tilkynnti að hann ætli sér að hætta sem formaður. Dagur hefur þó ekki enn viljað tjá sig um þann orðróm. 


Tengdar fréttir

Logi hættir sem formaður Samfylkingarinnar í haust

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur staðfest að hann muni hætta sem formaður flokksins í haust. Hann segist kveðja formennskuna sáttur en að á Landsfundi í haust þurfi að velja „öðruvísi manneskju“ en hann sjálfan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×