Í ársskýrslu Embættis landlæknis kemur fram að embættið hafi hagnast um 292 milljónir króna. Gjöld voru alls rúmir 1,6 milljarðar króna og tekjur 264 milljónir. Embættið fékk framlag úr ríkissjóði upp á tæpa 1,7 milljarða króna. Gjöld embættisins drógust saman um 160 milljónir milli ára.

Við árslok 2020 var eigið fé embættisins neikvætt um tólf milljónir króna en er nú 280 milljónir. Skuldir félagsins eru 270 milljónir króna. Beinn kostnaður vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar Covid-19 nam 195 milljónum króna.
75 einstaklingar starfa hjá Embætti landlæknis í samtals 71,4 stöðugildum. Þar af voru sjö einstaklingar í samtals sjö stöðugildum í tímabundnu starfi í verkefnum tengdum Covid-19. 104 einstaklingar voru með tímavinnusamninga vegna verkefna í tengslum við Covid-19, flestir við smitrakningu.

Í ársreikningi embættisins kemur fram að á árinu 2021 var fjárfesting þeirra í tölvukerfum eignafærð en árið áður var allur kostnaður vegna þeirra gjaldfærður. Það útskýri jákvæða afkomu ársins. “Stofnunin mun óska eftir millifærslu fjárveitinga milli rekstrar og fjárfestinga til jöfnunar,“ segir í ársreikningnum.
Meðal annarra verkefna embættisins á árinu var að endurskoða upplýsingasíðu fyrir D-vítamín, unnið að auknu heilsulæsi, átak í skráningu dánarmeina sem létust hér á landi en voru ekki með lögheimili á Íslandi og breytingar á skipulagi skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameini.