Samkvæmt vef Fuglaverndar verptu ernir um land allt í kringum aldamótin 1900 en þeim var næstum útrýmt á fyrri hluta 20. aldar með skotum og eitri. Nú verpa þeir aðeins á vestanverðu landinu. Stofninn hefur þó vaxið hægt og bítandi frá sjöunda áratugnum eftir að sett var bann við eitrun tófunnar árið 1964.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, áætlaði í fyrra að arnarstofninn teldi á fjórða hundrað fugla. Stór hluti hans væru þó ungfuglar, sem algengt væri að byrjuðu að verpa fimm til sex ára. Á sjöunda áratug síðustu aldar voru arnapörin aðeins talin vera ríflega 20.
