
Eftir að Rússar náðu að leggja undir sig allt Luhansk hérað í síðustu viku hafa þeir aukið stórskotaliðs-, eldflauga- og loftárásir sínar á borgir og bæi í Donetsk héraði, en sameiginlega mynda þessi héruð svo kallað Donbas svæði. Á yfirborðinu segjast Rússar vera að frelsa rússneskumælandi íbúa undan ofsóknum nasista í stjórn Úkraínu en í raun eru þeir að reyna að ná yfirráðum yfir Donbas vegna þess að þar eru ríkulegustu olíu-, gas- og kolaauðlindir Úkraínu. Þær eru reyndar svo miklar að Úkraína gæti séð Evrópu fyrir nánast öllu því gasi sem Rússar hafa selt til vestur Evrópu hingað til.

Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu sagði í ávarpi sínu til þjóðarinnar í nótt að loftvarnaflautur hefðu hljómað um allt land í gærkvöldi og nótt. Þótt lítið hafi verið um loftárásir á helstu borgir í norður- og vesturhluta landsins að undanförnu ætti fólk ekki að treysta því að hryðjuverkamenn tækju sér hlé. Eldflaugaárásir hafi meðal annars verið gerðar á borgir og bæi í Khmelnytskyi héraði sem er suðvestur af Kænugarði.

Pavlo Kyrylenko héraðsstjóri í Donetsk héraði skoraði á alla íbúa þess að bjarga lífi sínu og flýja í vesturátt í gær vegna stöðugra árása Rússa og sóknar þeirra þar. Einnig yrði auðveldara að verjast Rússum ef íbúarnir væru farnir. Enn væru um 350 þúsund manns í héraðinu þar sem 1,6 milljónir manna bjuggu áður en Rússar hófu innrás sína. Rússar einbeittu sér að borgunum Sloviansk og Kramatorsk vegna mikilvægra innviða í þessum borgum eins og ferskvatns hreinsiverum.