Dagar þess að skemmtistöðum sé lokað um miðnætti um helgar vegna veirusóttar eru liðin tíð. Djammþyrstir borgarbúar geta því verið að fram eftir morgni en það nýta hins vegar ekki allir.
„Fólk er farið að koma oftar á virkum dögum og líka kannski farið að koma fyrr eftir vinnu. Það eru ekki allir að bíða til ellefu eða tólf og fara svo niður í bæ heldur frekar koma, eiga stund niðri í bæ og fara jafnvel fyrr heim,“ segir Dísa Árnadóttir, rekstrarstjóri Röntgen.
Haraldur Anton Skúlason, eigandi á Lebowski Bar, tekur undir þetta. Fólk sé farið að vera duglegra að mæta fyrr á kvöldin.
„Við höfum alltaf verið með happy hour frá fjögur og alltaf margt fólk að koma í það en mér finnst aðeins búið að aukast að fólk á mínum aldri, 35 ára, fertugt, að það sé að koma fyrr og fara aðeins fyrr heim. Þá tekur djammþyrsti unglingurinn við,“ segir Haraldur.
Þannig að þetta er allt annað en fyrir faraldurinn?
„Já, ég myndi segja það. Að það væru viss menningarskipti að eiga sér stað í íslensku miðbæjardjammlífi. Það eru líka kannski breyttar áherslur. Fólk er farið að fá sér bara nokkra drykki og fara svo heim. Það er ekki að fara að sprengja sig jafn mikið á þessum suðupunkti á föstudagskvöldi,“ segir Dísa.
„Mér finnst ég ekki vera að sjá mikla breytingu, alla vega ekki jafn mikla og ég var að vonast eftir. En þú veist hvernig Íslendingar eru, þeir fara alltaf seint út,“ segir Rúnar Sveinsson, eigandi á Irishman Pub. Hann tekur þó undir að eldra fólkið tygisig fyrr heim og unga fólkið sitji eftir fram eftir nóttu.
Klikkun eftir Covid sem hefur jafnast út
Að sögn lögreglunnar er skemmtanalífið mun rólegra eftir covid. Fólk er að fara fyrr heim, mun færri gista fangageymslur og það er minna um líkamsárásir.
Veitingamenn hafa líka tekið eftir þessum breytingum, þó ákveðin sprengja hafi orðið þegar skemmtistaðir opnuðu fyrst eftir faraldurinn.
„Fyrst þegar við opnuðum allt eðlilega aftur þá fundum við alveg fyrir smá sprengju og smá kýrnar á vorin stemning að fólk missti sig í því að það væri komið frelsi aftur og mætti gera það sem það vildi. Svo held ég að þegar sú útrás leið hjá þá fór þetta allt að verða eðlilegt og fólk að einbeita sér að öðru og tempra sig aðeins,“ segir Dísa.
„Það var náttúrulega alveg bilun þarna eftir Covid en núna er þetta búið að jafna sig út,“ segir Rúnar.
„Þessi eldri kynslóð er að fara fyrr heim en eftir að Covid kláraðist þá voru krakkarnir sem voru um tvítugt þegar Covid var að byrja svolítið þyrst,“ segir Haraldur.
„Það kom rosa sprengja eftir að Covid kláraðist og þá var eins og beljur á vorin. Svo er þetta komið í sama gamla farið. Allir stilltir, prúðir og vilja dansa.“