Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum að talsverður fjöldi fólks sé þegar saman kominn í Eyjum og búist sé við enn fleiri gestum í dag. Þjóðhátíð í Eyjum hófst með húkkaraballinu í gær og stendur yfir alla helgina.
Þá segir að tvö minniháttar fíkniefnamál hafi komið upp og einn gist fangageymslu að eigin ósk. Að öðru leyti hafi nóttin verið fremur róleg.
„Þjóðhátíð verður sem kunnugt er sett í Herjólfsdal eftir hádegið í dag, föstudag, og mun dagskráin standa fram á mánudag. Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar Eyjamönnum og öllum gestum þeirra gleðilegrar Þjóðhátíðar. Verum vakandi og góða skemmtun.“