Í tilkynningu frá Fiskistofu Noregs segir að hættuástand hafi myndast nokkrum sinnum vegna ágengni fólks.
Rostungurinn Freyja hefur vakið mikla athygli í Noregi fyrir að leggja sig í höfnum og sökkva jafnvel bátum við að skríða um borð í þá. Hún kom sér fyrir í höfn nærri Osló í sumar og þangað hefur fólk streymt til að bera hana augum.
Þá vöruðu yfirvöld við því að rostungar ættu sér fáa óvini í náttúrunni og hræddust menn ekki. Freyja hikaði ekki við að nálgast menn og gæti verið hættuleg.
Sjá einnig: Vara áhugasama við því að nálgast rostunginn Freyju
Ástandið hefur farið sífellt versnandi og fleiri og fleiri hafa nálgast rostunginn. Fyrr í vikunni tilkynntu yfirvöld í Noregi að mögulega yrði dýrið aflífað vegna þessa og var látið verða af því í morgun.
Til greina kom að reyna að flytja dýrið en það var talið of erfitt og flókin aðgerð.
Í áðurnefndri tilkynningu segir Frank Bakke-Jensen, yfirmaður Fiskistofu Noregs, að hann átti sá því að fólk gæti brugðist reitt við ákvörðuninni. Hann stendur þó við hana og segist viss um að rétt ákvörðun hafi verið tekin. Dýravelferð sé mikilvæg en líf og heilsa fólks verði að vera í forgrunni.