Forstjórinn Hildigunnur Svavarsdóttir segir þetta í samtali við Morgunblaðið í morgun.
Mikið hefur verið fjallað um manneklu á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu síðustu misserin, en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra sagði á dögunum að ráðuneytið gæti ekki samþykkt fjölgun læknanema fyrr en Landspítalinn hefði tök á að taka á móti þeim.
Ein leið til að fjölga læknanemum væri þó að fjölga nemum á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en síðustu ár hafa alls um sextíu læknanemar verið teknir inn í grunnnám við Háskóla Íslands á ári hverju.
Hildigunnur segir að hið sama eigi við um nema í hjúkrunarfræði – verði ráðist í skipulagsbreytingar gæti Sjúkrahúsið á Akureyri einnig tekið við fleiri nemum í þeirri grein.
Verði að bregðast við mannekluvandanum
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, sagði fyrr í mánuðinum að Landspítalinn færi í þrot verði ekki brugðist við mannekluvandamálum spítalans. Hann sagði stöðuna aldrei hafa verið jafnþunga og í sumar þegar hleypa hafi þurft starfsfólki í langþráð frí eftir heimsfaraldurinn.
Runólfur sagði að manneklan væri mest á meðal hjúkrunarfræðinga en einnig á meðal lækna. Sagði hann að fjölga verði nemendum í geirunum hér heima og fara nýjar leiðir, á borð við að nýta hermikennslu til að þjálfa færni.