Eldflaugum var skotið á tvær herstöðvar þar sem bandaríska hermenn má finna. Bandaríkjamenn svöruðu með árásum úr Apache-herþyrlum og segja forsvarsmenn Bandaríkjahers að þeir sem taldir eru hafa borið ábyrgð á árásunum hafi verið felldir.
Tveir eða þrír menn eru sagðir hafa fallið í þyrluárásum Bandaríkjamanna og segjast þeir hafa grandað nokkrum farartækjum og búnaði sem notaður var til að gera árásirnar.
Ekki er vitað hvaða hóp er um að ræða, samkvæmt frétt NBC News. Fyrr í dag gerðu Bandaríkjamenn þó loftárásir á sveitir sem sagðar eru tengjast Byltingarvörðum Írans. Þær árásir voru gerðar að skipan Joes Biden, forseta.
AP fréttaveitan segir að markmiðið með þeim loftárásum hafi verið að svara árásum sem hafa verið gerðar á bandaríska hermenn á undanförnum mánuðum. Einn af forsvarsmönnum varnarmalaráðuneytis Bandaríkjanna sagði blaðamönnum í dag að Bandaríkjamenn vildu gera Írönum og bandamönnum ljóst að árásum á þá yrði svarað.
Miðað við muni sem hafi fundist eftir árásir á bandaríska hermenn, eins og brot úr drónum, sé fullvíst að Íranir hafi gert árásirnar.
Bandarískir hermenn hafa verið í austurhluta Sýrlands frá 2015. Þar hafa þeir tekið þátt í aðgerðum gegn Íslamska ríkinu í samstarfi við sýrlenska Kúrda og bandamenn þeirra í Sýrlandi. Fregnir hafa borist af því á undanförnum mánuðum að umsvif ISIS-liða í Sýrlandi og Írak séu að aukast á nýjan leik.