Guðlaug María Lewis, menningarfulltrúi og verkefnastjóri Ljósanætur segir stórkostlegt að fá loksins að halda Ljósanótt eftir tvær mislukkaðar tilraunir.
„Nú tókst þetta svo um munar, það er allt með okkur í liði,“ segir Guðlaug.
Hún segist halda að óhætt sé að halda því fram að aldrei hafi fleiri látið sjá sig á Ljósanótt.
Dagskrá Ljósanætur var troðfull af skemmtiatriðum, hljómsveitin FLOTT var á dagskrá, Bubbi Morthens tryllti lýðinn, flugeldasýning skemmti mannskapnum og dagskrá á stóra sviðinu lauk á rapparanum Birni.
Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar segir mikla stemmingu vera á svæðinu.
„Fólk er búið að bíða lengi eftir því að fá að koma á þessa tónleika og koma hérna í kvöld,“ segir Tómas.
Dagskrá Ljósanætur er þó ekki lokið en boðið verður upp á allskonar skemmtilegt út morgundaginn. Dagskrána má sjá hér.