Samtökin eru enn á byrjunarstigum en þeim er ætlað að ná utan um fjölbreyttan hóp þeirra sem glíma við fíknisjúkdóm. Markmiðið er að þegar fram líða stundir verði hægt að veita ráðgjöf til fíkla sem þurfa á aðstoð að halda.
Mikill áhugi var fyrir stofnun slíkra samtaka á ráðstefnu um skaðaminnkun sem fór fram í gær en Ragnar Erling Hermannsson, sem titlar sig stjórnarformann samtakanna Að rótunum, segist lengi hafa gengið með hugmyndina í maganum.
„Mér fannst að þetta ætti að vera nafn sem að lýsir því bara að við þurfum að fara að rótum vandans. Nú er kominn tími til að átta sig á því að tölfræðin er til dæmis ekki með okkur fíklum, þegar kemur til að mynda að meðferðarstofnunum og öðrum árangri þar,“ segir Ragnar.
Greint var frá því í kvöldfréttum í gær að fá úrræði væru til staðar fyrir fólk með fíknivanda og þyrfti það því til dæmis að halda sig til á svæðum eins og Öskjuhlíð.
Að sögn Ragnars er ljóst að allt samfélagið beri skaða af því þegar fólk fær ekki mannsæmandi meðferð. Þá sé það ekki síður kostnaðarsamt fyrir samfélagið. „Annað hvort á fólk eigið líf eða ekki, og allir skaðast af því,“ segir hann.
Hann fagnar umræðunni sem hefur átt sér stað og segir tíma notenda kominn. Það hafi lengi verið reynt að ná fram breytingum með því að komast í mjúkinn hjá stjórnmálamönnum og yfirvöldum en nú þurfi aðra nálgun.
„Ég er sá sem ætlar ekki að biðja um leyfi lengur. Þú veist bara, má ég eiga lífsgæði, má ég eiga virðingu. Það er ekki þannig, það má ekki vera þannig,“ segir Ragnar.